154. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2024.

uppbygging klasa opinberra fyrirtækja og stofnana.

133. mál
[11:40]
Horfa

Flm. (Ágúst Bjarni Garðarsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um uppbyggingu klasa opinberra fyrirtækja og stofnana. Þetta er þingsályktunartillaga sem er flutt hér í þriðja sinn en var síðast lögð fram á 153. löggjafarþingi. Ásamt þeim sem hér stendur eru hv. þingmenn Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Halla Signý Kristjánsdóttir, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir, Þórarinn Ingi Pétursson, Inga Sæland, Guðmundur Ingi Kristinsson, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Jakob Frímann Magnússon, Tómas A. Tómasson og Sigmar Guðmundsson á þessari tillögu.

Það kom áhugaverð frétt fyrir ekki svo löngu síðan, herra forseti, þar sem í ljós kom hjá forstjóra Ríkiskaupa að ríkið er að greiða hátt í 30 milljarða á ári í leigu á húsnæði fyrir sínar stofnanir og að þar sé svigrúm til þess að fara betur með opinbert fé og nýta innviði með betri hætti en við erum að gera í dag. Mér varð hugsað til þessarar tillögu minnar þegar ég rak augun í þessa frétt vegna þess að tillagan sem ég mæli hér fyrir fjallar nákvæmlega um þetta tiltekna mál, að nýta húsnæðið betur, nýta innviðina betur og fá samlegðaráhrif ólíkra stofnana og starfsumhverfa á einum og sama staðnum.

Umræða um mikilvægi klasasamstarfs hefur farið vaxandi undanfarin ár því að klasar hafa sannað að þeir auka samkeppnishæfni og verðmætasköpun. Hér má nýta hugmyndafræði klasasamstarfs til að efla samvinnu opinberra fyrirtækja og stofnana og stuðla þannig, líkt og ég segi, að hagræðingu og færa núverandi ástand til betri vegar. Með uppbyggingu opinbers klasa er mögulegt að hagræða enn frekar í ríkisrekstri og bæta skipulag á mörgum sviðum, t.d. í rekstri stofnana. Það er ljóst að slíkt klasasamstarf getur aukið framleiðni og nýsköpun og þannig leitt til þess að við sköpum meiri verðmæti, sem hlýtur alltaf að vera útgangspunkturinn í þessu öllu saman. En hér má sjá fyrir sér að uppbygging slíks klasa, þar sem kæmu saman mörg opinber fyrirtæki eða stofnanir í sama húsnæði, myndi skila umtalsverðri rekstrarlegri hagræðingu. Þarna má sjá fyrir sér, líkt og ég nefni í tillögunni, húsnæði sem er 5.000–6.000 m². Þar væru á bilinu 250–300 starfsmenn. Þar myndum við að mínu mati sjá hagræðingu í t.d. rekstri á tölvukerfum, móttöku, mötuneyti og bara auðvitað rekstri á húsnæðinu sjálfu.

Það þarf að hafa annað í huga og það er að slíkur klasi þyrfti auðvitað að vera á þeim stað þar sem nýta mætti umferðarmannvirki betur. Ég hef oft sagt það, hafandi verið sveitarstjórnarmaður hér á höfuðborgarsvæðinu, í Hafnarfirði, að við erum alltaf að ýta allri umferð í eina átt á morgnana og svo til baka seinni part dags. Það er vegna þess að það hefur einhvern veginn skapast sú menning að stofnanir og opinber fyrirtæki eru öll á sama blettinum. Þessu verðum við að breyta út frá mörgum sjónarmiðum og ég held að þetta sé, ef okkur myndi lánast slíkt, einhver besta samgönguframkvæmd sem við á höfuðborgarsvæðinu myndum sjá, að ná að dreifa umferðinni betur. En þess vegna verðum við að nýta umferðarmannvirkin sem nú eru til staðar með betri hætti en við erum að gera í dag. Það eru tækifæri sem má nýta hér í nágrannasveitarfélögunum vegna þess að við erum farin að tala um að höfuðborgarsvæðið — við getum farið út á Reykjanesskaga eða austur fyrir fjall — við erum farin að tala um þetta sem eitt atvinnusvæði. Ríkið verður auðvitað líka að taka þátt í slíku.

Í þessari tillögu er gert ráð fyrir því að fjármála- og efnahagsráðherra skipi starfshóp sem mótar tillögur í þessum anda og unnið verði í samstarfi við einkaaðila og sveitarfélög. Starfshópurinn skili niðurstöðum og tillögum að slíku klasasamstarfi fyrir lok árs 2024.

Ég held, herra forseti, að það sé rétt að þessari tillögu verði vísað til hv. atvinnuveganefndar.